10 punktar um Grensásdeild á 50 ára afmæli hennar

Það er við hæfi að líta til baka á hálfrar aldar afmæli Grensásdeildar 2023 og huga að því hvernig þessi einstaka stofnun varð til og hefur þróast. Hér verður sagan ekki rakin – heldur stikla á fáeinum atriðum, sem sýna hvernig aðstæður hafa þróast, og hvað starfsfólk og skjólstæðingar hafa þurft að takast á við.

  1. Grensásdeild var upphaflega ætlað að vera hjúkrunarheimili fyrir aldraða og var byggð sem slík – en fyrir frumkvæði Jóns Sigurðssonar borgarlæknis og Hauks Benediktssonar framkvæmdastjóra Borgarspítalans var ákveðið að Grensásdeild yrði fyrir þá sem þyrftu sérstakrar endurhæfingar við og séð yrði fyrir aðstöðu til þess.Ásgeir Ellertsson fyrsti yfirlæknir deildarinnar orðaði það svo: „Þeir höfðu gert sér grein fyrir því að bráða- og slysaspítali eins og Borgarspítalinn gæti ekki verið án enduhæfingarlækninga. Það væri ekki nóg að veita bráðaþjónusu heldur væri nauðsynlegt að beita nútímalegum meðferðarúrræðum til hjálpar þeim sem sjúkdómur eða slys höfðu skilið eftir fatlaða eða lamaða.  Markmiðið væri ekki aðeins að koma fólki í gengum bráðaveikindi heldur einnig að stuðla að því að það kæmist aftur heim til sín og út í lífið á nýjan leik væri þess nokkur kostur“.
  2. Tækjabúnaður ansi fábrotinn til að byrja með.
    Í sjúkraþjálfun voru í upphafi  einungis 1-2 þrekhjól, nokkur lóð og sandpokar, trissur, rimlar og göngubrú í æfingasalnum og svo  nokkrir meðferðarbekkir, m.a. voru 2 breiðir meðferðarbekkir smíðaðir á trésmíðaverkstæði spítalans, sem nýttust í mörg ár. Engir lyftarar voru til á Grensásdeildinni og þurfti starfsfólk að lyfta sjúklingum sem ekki komust sjálfir í og úr rúmi.
     
  3. Eins mikilvægt og það er fyrir hreyfihamlaða að geta þjálfað í vatni, var engin sundlaug á Grensási fyrsta áratuginn. Fyrstu árin fékk Grensásdeild inni í sundlaug Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og síðan í sundlaug Sjálfsbjargar.
    Það var ekki auðhlaupið, því bera þurfti sjúklingana upp í rútur til að komast á milli, en á þessum árum voru hvorki til sérútbúnir bílar né ferðaþjónusta fyrir fatlaða.
  4. Það er því ekki að furða að fljótlega hófst mikil barátta fyrir sundlaug, fjórir fyrrum ráðherrar báru fram þingsályktunartillögu þess efnis árið 1976 og fór Magnús Kjartansson þar í broddi fylkingar.  Þegar málið var tekið fyrir á Alþingi, fjölmenntu starfsmenn og sjúklingar Grensásdeildar á Austurvöll – og alla leið upp á þingpalla, – sem var enginn hægðarleikur.  En laugin varð að veruleika og var vígð 12.október 1985.
  5. Síðan hefur ekkert verið byggt við Grensásdeild, þótt íbúafjöldi landsins hafi meira en tvöfaldast og mun fleiri lifi nú af alvarleg áföll og þurfi endurhæfingar við.
      
  6. Það er því sérlega ánægjulegt að nú hefur verið tekin ákvörðun um að tvöfalda húsnæði Grensásdeildar, og er hönnun vel á veg komin. Viðbyggingin mun gerbreyta aðstæðum til þjálfunar af öllu tagi, auki þess sem fjöldi einstaklingsherbergja með baði fer úr 14 í 33.
  7. Grensásdeild hefur notið einstakrar veldildar í samfélaginu og hafa líknarfélög og önnur félög, klúbbar, fyrirtæki og einstaklingar verið ómetanlegir bakhjarlar deildarinnar alla tíð. Það hefur  gert henni kleift að eignast sérhæfðan tækjabúnað sem nauðsynlegur er til þjálfunar. Sú þörf verður aldrei uppfyllt, því tækniframfarir gera sífellt nýjar lausnir mögulegar, sem skipta sköpum í þeirri meðferð sem unnt er að veita.
  8. Hollvinir Grensásdeildar, sem stofnaðir voru að frumkvæði Gunnars Finnssonar viðskiptafræðings árið 2006, hafa staðið eins og klettur að baki deildinni, safnað fé og talað máli hennar af mikilli sannfæringu og með góðum árangri. Þeir hafa mætt óskum starfsfólks um nýjan búnað, endurgert aðkomu að deildinni og gerbreytt hluta garðsins, svo hann nýtist nú til þjálfunar og útivistar.
     
  9. Eftir áratuga baráttu var 5.október 2023  tekin fyrsta skóflustunga að 4.400 fermetra viðbyggingu við Grensásdeild sem mun meira en tvöfalda húsnæði hennar. Aðstæður skjólstæðinga og starfsfólks munu gerbreytast, því nýja byggingin er sérhönnuð fyrir endurhæfingu, ólíkt gömlu byggingunni sem ætlað var að vera hjúkrunarheimii. Lofthæð og burðargeta munu gera mögulegt að nota nýjustu tæki til endurhæfingar. Á 50 ára afmæli deildarinnar söfnuðu Hollvinir Grensásdeildar fyrir nýjum tækjabúnaði deildarinnar við frábærar undirtektir, en á árinu söfnuðust 178 milljónir króna..
     
  10. En húsnæði og tækjabúnaður duga skammt ef starfsfólkið er ekki fyrsta flokks. Grensásdeild hefur átt því láni að fagna, að eiga einstaklega færa starfsmenn, sem ekki bara kunna sitt fag, heldur hafa brunnið fyrir bata sinna skjólstæðinga. Eldhugurinn sést ekki síst í því, að hér hafa konur og karlar starfað í áratugi. Gert endurhæfingu að sínu ævistarfi, fylgst með framförum í sínum greinum og innleitt nýjar leiðir til meðferðar, verið vakandi fyrir því sem má bæta til að auka líkur á betri færni. Deildin er þekkt fyrir góðan, jákvæðan og uppörvandi anda, sem er ómetanlegt fyrir skjólstæðingana sem hafa orðið fyrir þungbærum áföllum. Hollvinir þakka starfsmönnum Grensásdeildar fyrr og síðar. Megi gæfan sem fylgir vel unnu verki fylgja þeim alla tíð!