Styrktu með símtali
907-1503 - 3.000 kr
907-1505 - 5.000 kr
907-1510 - 10.000 kr
Október 2023

Meira en 147 milljónir fyrir Grensás

 

Frábær árangur af söfnunarþætti fyrir afmælissjóð Grensásdeildar.

 

Þegar útsendingu söfnunarþáttarins Gefum byr undir báða vængi lauk föstudagskvöldið 6.október 2023, höfðu safnast 147 milljónir í afmælissjóð Grensásdeildar. Enn er hægt að leggja deildinni lið og eru söfnunarnúmer opin til 13.október, en alltaf er hægt að leggja inn á styrktarreikning á www.grensas.is .

Hápunktur söfnunar vegna 50 ára afmælis Grensásdeildar náðist föstudaginn 6.október 2023, þegar þátturinn Gefum byr undir báða vængi var sýndur á RÚV. Í símaveri Vodafone voru allar línur rauðglóandi frá því áður en útsending hófst kl 19:40 og fram undir kl 23. Erillinn var slíkur að 40 sjálfboðaliðar við símsvörun náðu ekki að fá sér hressingu allt kvöldið. Síminn hringdi stanslaust. Þeirra á meðal voru margir starfsmenn Grensásdeildar, forseti Íslands, landlæknir, formenn stjórnmálaflokka, listamenn, fyrrum fréttastjóri og fjöldi annarra velunnara. Leikararnir Gói og Katrín Halldóra voru kynnar og héldu utan um útsendinguna frá símaverinu af sinni alkunnu snilld. Þau fylgdust með framgangi söfnunarinnar og tóku á móti gestum, þeirra á meðal tónlistarfólki og listamönnum frá Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu, að ógleymdum forseta læknadeildar HÍ, sem var að ljúka maraþongöngu til styrktar Grensási, ásamt Frosta hundinum sínum og fleiri vinum.

Í sjónvarpsveri RÚV tóku Unnsteinn Manuel og Eva María á móti gestum sem allir þekkja deildina vel, ýmist sem stjórnendur, starfsmenn og síðast en ekki síst skjólstæðingar. Fólk á öllum aldri sem hefur þurft að dveljast þar vegna sjúkdóma eða slysa, eða hefur átt þar ástvini. Þau einlægu viðtöl létu engan ósnortinn.

Fjöldi frábærra tónlistarmanna og leikara kom fram, bæði í sjónvarpssal og á Grensásdeild. Mikil stemming myndaðist og árangur söfnunarinnar fór fram úr björtustu vonum.

Hollvinir Grensásdeildar þakka öllum sem komu að undirbúningi og framkvæmd söfnunarinnar.  Frábær árangur hennar sýnir hlýhug þjóðarinnar til Grensásdeildar, sem aldrei verður fullþakkaður.