Apríl 2023

50 ára afmæli Grensásdeildar 26.apríl 2023

Fjölmenni fagnaði 50 ára afmæli Gresásdeildar

 

Það voru fagnaðarfundir þegar á annað hundrað vina og velunnara Grensásdeildar komu þar saman  á 50 ára afmæli deildarinnar, 26. apríl 2023.

Vox feminae slógu tóninn með sínum fallega söng, og fengu alla með í afmælissönginn svo undir tók.

Núverandi og fyrrverandi starfsmenn, þjónustuþegar deildarinnar,  fulltrúar fyrirtækja, klúbba og félagasamtaka, sem stutt hafa deildina gegnum árin, og yfirstjórn heilbrigðismála og LSH fögnuðu saman þessum merka áfanga.

      

     

         

Kynnir var Sigrún Knútsdóttir fyrrum yfirsjúkraþjálfari, en ávörp fluttu Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Runólfur Pálsson forstjóri LSH, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir verkefnastjóri hjá heilbrigðisráðuneyti, Svava Magnúsdóttir stjórnarkona í Hollvinum Grensásdeildar og Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnar Hollvina Grensásdeildar. 

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður og mikil þrengsli, hefur starf deildarinnar borið frábæran árangur, enda hefur hún alltaf verið mjög heppin með starfsfólk og haldist vel á því. Á 50 árum hefur deildin þjónað um 50 þúsund manns, enda eru fáar fjölskyldur á landinu sem ekki þekkja einhvern sem hefur verið á Grensásdeild. 

Hollvinir Grensásdeildar heiðruðu sérstaklega á þessum tímamótum Köllu Malmquist fyrsta yfirsjúkraþjálfara Borgarspítalans,  og minningu Ásgeirs B. Ellertssonar yfirlæknis Grensásdeildar fyrstu áratugina og órofa bakhjarls deildarinnar alla tíð. Þeim var báðum þakkað farsælt ævistarf í þágu endurhæfingar. Ekkju Ásgeirs, Eiríku Urbancic, var færður blómvöndur.

 

Dagskránni lauk með ferföldu húrrahrópi fyrir öllu starfsfólki Grensásdeildar, því það er ljóst að árangur starfsins byggir fyrst og fremst á góðu starfsfólki.