Október 2022

Birgir Ingimarsson varaformaður HG er látinn

Hollvinir Grensásdeildar sjá á bak sínum öflugasta félaga.

Birgir Ingimarsson – hann Biggi okkar - kvaddi aðfararnótt síðasta sumardags 21.október 2022, eftir örstutta en snarpa baráttu við krabbameinið sem við höfðum öll vonað að væri farið. Þetta gekk ótrúlega hratt og eftir stöndum við öll steini lostin.

Biggi var einstakur. Þvílíkur ótrúlegur félagi! Hann var svo bjartur og jákvæður, hugmyndaríkur, framkvæmdasamur og ósérhlífinn. Hann einn kom meiru í verk en við öll hin í stjórn Hollvina til samans. Hans einkunnarorð voru ´“Ég skal gera það“ – alltaf fljótastur til og tók öllum verkefnum vel. Hann gerbreytti vinnubrögðum okkar sérstaklega í kynningarmálum, var svo faglegur og flottur, gat allt. Kunni að setja upp prentefni, búa til plaköt, merkispjöld, fréttabréf, facebooksíðu, flögg og stengur  - og ef hann gat ekki gert það sjálfur, greip hann símann og talaði við vin til að redda málum. Þvílíkur orkubolti og sólargeisli.

Blessuð sé minning okkar kæra vinar og megi þakklæti okkar og kærleikur umvefja hann og hans yndislegu konu Birnu Dís og ástvini alla.