Nóvember 2019

Hættir gullgæsin brátt að verpa?

Hér á landi leynist gullgæs í búi nokkru, hún verpir mörgum gulleggjum ár hvert til hagsbóta fyrir eigendur sína ...

Hér á landi leynist gullgæs í búi nokkru, hún verpir mörgum gulleggjum ár hvert til hagsbóta fyrir eigendur sína. Í skammsýni sinni hættir þeim þó til að spara við hana fóðrið, en þá dregur af henni og hún geldist.

En svo gerðist það eitt árið að bæði eigendur og bústjóri áttuðu sig á hvað þeir áttu verðmætan bústofn; þeir yrðu komnir með fjölda nýrra gullgæsa sem skiluðu af sér verðmætum, í stað þess að kosta fóður. Gullgæsin fór því að verpa aftur og úr eggjunum skriðu máttlitlir ungar sem höfðu þó gullvæga eiginleika og þroskuðust í einstaklinga sem lögðu sitt til búsins. Hvaða bú er svona heppið? Er þig farið að gruna að þetta sé kannski þitt eigið bú?

Já það er rétt. Þjóðarbúið á þennan dýrmæta bústofn sem eflir fjölda einstaklinga sem verpa gulleggjum því þeir munu verða sjálfbjarga, rísa úr rekkju og láta gott af sér leiða í stað þess að liggja ósjálfbjarga upp á hirðinn sinn komnir.

Grensásdeild er gullgæsin okkar sem árlega hefur sinnt um 400 sjúklingum eftir alvarleg slys eða veikindi og endurhæft þá til nýs lífs. Við megum ekki veikja þennan mikilvæga hlekk í okkar heilbrigðiskerfi. Undanfarin ár hefur deildin ekki getað tekið við öllum sem þurfa á þjónustu hennar að halda. Biðlistar lengjast og batahorfur versna á meðan. Er gullgæsin að geldast?

Laugardaginn 9.nóvember 2019 halda Hollvinir Grensásdeildar jólakaffi og basar í Bústaðakirkju. Fjölmennum þangað og hlúum að gullgæsinni okkar!

Kristín Þorkelsdóttir, Baldvin Jónsson, Birgir Ingimarsson; Bryndís Björk Kristjánsdóttir, Dagbjört Oddný Matthíasdóttir, Guðrún Pétursdóttir, Sigríður Þórhallsdóttir, Þórunn Þórhallsdóttir

 

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 9. nóvember 2019)