Júlí 2017

Kraftaklerkurinn styður Grensásdeild

Í meira en áratug hefur „Kraftaklerkurinn“ sr. Gunnar Sigurjónsson boðið til Mótorhjólamessu í Digranesskirkju á annan í hvítasunnu. Þar er allt mótorhjólafólk landsins velkomið og koma margir langan veg, jafnvel af Austurlandi, til að taka þátt í þessari einstöku messugjörð.
 
Árum saman hefur Mótorhjólamessan skilað dýrmætu framlagi til Hollvina Grensásdeildar, því Grillhúsið býður upp á sérstakan hamborgara, Kraftaklerkinn, á öllum sínum sölustöðum þennan dag og rennur allt andvirðið til Grensásdeildar. Ekki nóg með það, heldur tvöfalda Bifhjólasamtök lýðveldisins Sniglarnir fjárhæðina með því að leggja fram krónu á móti krónu. Í ár nam söfnunarféð nærri hálfri milljón króna, sem afhent var Hollvinum Grensásdeildar.
 
Hollvinir Grensásdeildar þakka þennan einstæða og skemmtilega stuðning og hvetja alla til að fá sér kraftaklerk í Grillhúsinu á annan í hvítasunnu, hvort sem er á Sprengisandi, við Tryggvagötu eða í Borgarnesi!
 
Mynd: Sr. Gunnar Sigurjónsson kraftaklerkurinn í Digranesskirkju, Þórður Bachman eigandi Grillhússins og Steinmar Gunnarsson ritari Bifhjólasamtaka lýðveldisins Sniglanna, bjóða formanni Hollvina Grensásdeildar, Guðrúnu Pétursdóttir einn nýsteiktan kraftaklerk á Grillhúsinu við Sprengisand, sem tákn um hálfrar milljón króna styrk til Hollvinanna.