Júní 2015

Aðalfundur 2015: Lausn á húsnæðisvandanum áfram aðalverkefnið

Aðalfundur samtakanna Hollvinir Grensásdeildar (HG) var haldinn í kennslustofu Grensásdeildar LSH miðvikudaginn 3. júní 2015. Í skýrslu stjórnar kemur fram að lausn á húsnæðisvanda Grensásdeildar var áfram aðalverkefni HG. Eftir fund með heilbrigðisráðherra í ágúst á síðasta ári þótti ljóst að dráttur yrði á framkvæmdum við nýbyggingu. Stjórnin ákvað þá að einbeita sér á meðan að framkvæmdum á lóð Grensásdeildar með það fyrir augum að hún nýttist sjúklingum til útivistar og hefur átt í viðræðum við forsvarsmenn Grensásdeildar um það mál. Einnig er fyrirhugað að leita eftir samstarfi við Reykjavíkurborg um opnun lóðarinnar þannig að hún nýtist nágrönnum Grensásdeildar ekki síður en skjólstæðingum.
 
 
 
Stjórn Hollvina Grensásdeildar ásamt þeim félögum George og Ringo.
 
Á árinu lögðu HG Grensásdeild til áhöld, tæki og fl.að verðmæti um 2,3 m.kr. Helstu tekjulindir HG eru auk félagsgjalda og sölu minningarkorta, basar, áheit vegna Reykjavíkur maraþons og gjafir frá mörgum einstaklingum og félagasamtökum.
 
Stefán Yngvason yfirlæknir Grensásdeildar gerði grein fyrir starfi deildarinnar á árinu og hvað þarf að gera. Deildinni bárust ýmsar gjafir á árinu en deildin byggir mikið á gjöfum frá velunnurum. Enn er beðið eftir lausn á húsnæðisvanda deildarinnar en áhugi er á gera breytingar innanhúss í núverandi byggingu og fjölga einsmanns herbergjum og gera þau heimilislegri enda dvelja skjólstæðingar deildarinnar þar oft vikum, jafnvel mánuðum saman.
 
Aðalfundurinn samþykkti ársreikning samtakanna en þau höfðu í árslok 99,9 m.kr. til ráðstöfunar. Fundurinn samþykkti einnig starfsáætlun komandi árs sem m.a. kveður á um að HG leggi megináherslu á stuðning við aðgerðir er lúta að fjármögnun lausna á hinum alvarlega húsnæðisvanda Grensásdeildar og að veita aðstoð til kaupa á tækjum og búnaði sem deildina vanhagar um.
 
Þá þakkaði aðalfundurinn öllum þeim, sem stutt hafa starf HG á árinu en þessi stuðningur er samtökunum ómetanleg hvatning. Þá vottaði fundurinn hinu frábæra starfsfólki Grensásdeildar virðingu og þakklæti fyrir framlag þess sem er það sem gert hefur deildina einstaka.
 
Stjórn samtakanna skipa Ottó Schopka formaður, Guðrún Pétursdóttir varaformaður, Þórunn Þórhallsdóttir gjaldkeri, Dagbjört Odný Matthíasdóttir ritari og Birgir Ingimarsson meðstjórnandi og til vara Baldvin Jónsson og Bryndís Björk Kristjánsdóttir. Þau Jóhanna Jóhannesdóttir og Þór Jakobsson voru kosin skoðunarmenn reikninga. Edda Heiðrún Backman er sérlegur ráðgjafi samtakanna, einkum í málum er snerta fjáröflun og kynningu.