Tónleikar Hollvina slá í gegn
Húsfyllir var á velheppnuðum styrktartónleikum Hollvina Grensásdeildar í Háskólabíó laugardaginn 30.maí 2015. Tónleikarnir sem nefndir voru „Bítlakrás fyrir Grensás“ voru hugmynd Birgis Ingimarssonar, sem er einn þeirra sem notið hafa þjónustu Grensásdeildar og vildi sýna deildinni þakklæti sitt með því að gera þessa hugmynd að raunveruleika. Margir landsþekktir listamenn komu fram á tónleikunum og fluttu lög bítlanna Lennon og McCartney. Þeir gáfu vinnu sína og lögðu þannig Grensásdeild ómetanlegt lið.
Kynnar á tónleikunum voru Helgi Pétursson og Bogi Ágústsson. Meðal fjölmargra listamanna sem komu fram voru Ari Jónsson, Arnar Jónsson, Björn Thoroddsen, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, Ólafía Hrönn, Þuríður Sigurðardóttir, Örn Gauti Jóhannsson, Gospelkór Jóns Vídalín, hljómsveitin Bandið bak við eyrað, Maíkvartettinn, og sönghópur úr Domus Vox. Hljómsveit undir stjórn Davíðs Sigurgeirssonar lék undir með listamönnunum.
Mikla athygli vakti leynigestur tónleikanna, en þar birtist Stefán Eiríksson, fyrrv. lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, syngjandi „She Came through the Bathroom Window“. Þetta atriði var sýnt í fréttatíma RÚV, nánast í beinni útsendingu. Síðan fór Arnar Jónsson með „A Hard Day´s Night“ við undirleik Maíkvartettsins.

Ýmis ávörp voru flutt af sýningartjaldi, Edda Heiðrún Backman bauð gesti velkomna, formaður Hollvina Grensásdeildar, Ottó Schopka, flutti ávarp og Stefán Yngvason, yfirlæknir Grensásdeildar LHS, lýsti hve mikils virði það er fyrir Grensásdeild að hafa bakhjarl eins og Hollvinafélagið. Þá voru einnig sýnd viðtöl við þrjá skjólstæðinga Grensásdeildar, þau Helgu Þórarinsdóttur, Björn Rúnar og Bryndísi Kristjánsdóttur, sem sögðu frá því hvers virði deildin er þeim. Viðtölin má sjá hér á síðunni.
Hollvinafélagið notaði þetta tækifæri til að afla nýrra félaga og skráðu 150 nýir félagsmenn sig í félagið.
Hollvinir Grensásdeildar standa í mikilli þakkarskuld við alla þá frábæru listamenn sem komu fram á tónleikunum og gáfu vinna sína svo og við frumkvöðulinn Birgi Ingimarsson sem dreif málið áfram af aðdáunarverðum áhuga og elju og hreif alla með sér sem til var leitað. Ennfremur þakkar félagið öllum þeim fjölmörgu sem með margvíslegum hætti gerðu þessa tónleika að veruleika.
Fleiri myndir frá tónleikunum má sjá á Facebook-síðu HG, Hollvinir Grensás.