Mars 2015

"Ný viðbygging er draumurinn"

Í gær birtist grein í Morgunblaðinu um söfnunarátak Hollvina:
 
Hollvinir Grensásdeildar vinna stöðugt að því að safna fé til tækjakaupa og endurbóta á húsnæði deildarinnar. Nú stendur yfir sala á geisladisknum Með sorg í hjarta með hljómsveitinni Gæðablóðum og rennur ágóðinn til Grensásdeildar. Hljómsveitinni rennur blóðið til skyldunnar því tónlistarmaðurinn Ólafur Þórðarson, Óli í Ríó, bróðir söngvara Gæðablóða, var sjúklingur á Grensásdeild áður en hann lést. „Það vantar alltaf peninga,“ sagði Ottó Schopka, formaður Hollvina Grensásdeildar. Hann segir að nú vanti meðal annars sjúkrarúm, rafknúinn sturtustól, sturtustól fyrir sundlaug, hjólastóla, meðferðarbekki fyrir sjúkraþjálfun og þrekhjól. Þessi búnaður slitnar hraðar en áður vegna aukinnar meðalþyngdar landsmanna.
 
 
 
ORÐIÐ MJÖG ÞRÖNGT
 
Þá er áhugi á að gera sjúkrastofurnar vistlegri, t.d. með endurnýjun náttborða, og koma þar fyrir kommóðum, stólum, lömpum og fleira enda dvelja sjúklingar oft langdvölum á stofunum. Eitt verkefni er þó langstærst.
 
„Það hefur lengi staðið til að stækka Grensásdeildina. Húsnæðið hefur ekkert stækkað frá því deildin tók til starfa fyrir rúmlega fjörutíu árum. Það er orðið mjög þröngt og vantar betri aðstöðu fyrir þjálfun og fleira,“ sagði Ottó. Viðbygging við Grensásdeild kostar um 1.100 milljónir. Ottó sagði að söfnunarátak Eddu Heiðrúnar Backman, Á rás fyrir Grensás, hefði safnað um 100 milljónum króna.
 
„Það voru notaðar um 32 milljónir af þeim peningum til að byggja skýli yfir bílastæði svo fólk sem kemur í þjálfun þurfi ekki að standa úti í roki og rigningu á meðan það tekur hjólastólinn úr bílnum og kemur sér inn í skjól,“ sagði Ottó. Hann sagði að áhugi væri á að bæta aðgengi sjúklinga að lóðinni við Grensásdeild svo þeir geti notið útivistar á góðviðrisdögum.
 
Hollvinir Grensásdeildar hafa rætt við stjórnvöld um viðbygginguna við Grensásdeild. Ottó kvaðst gera sér vonir um að hún geti orðið næst í röðinni á eftir sjúkrahóteli sem fljótlega hefst bygging á. Hann sagði að rætt hefði verið um að hollvinasamtökin settu fjármuni í hönnun byggingarinnar. Mikilvægt væri að framkvæmdir hæfust sem fyrst því hönnunin úreltist fljótt.