Mars 2015

Starfsfólk Grensásdeildar hvunndagshetjur ársins

Starfsfólk Grensásdeildar Landspítalans var valið Hvunndagshetjur ársins þegar Fréttablaðið veitti árleg Samfélagsverðlaun sín fyrir skemmstu. Viðurkenningin er veitt fyrir óeigingjarnt og mikilvægt starf við að koma fólki út í lífið aftur. Með þessari viðurkenningu er enn og aftur vakin athygli á því frábæra starfi sem unnið er á Grensásdeild og beinir vonandi augum ráðamanna að nauðsyn þess að búa vel að starfseminni.
Í frétt Fréttablaðsins um afhendingu viðurkenningarinnar er m.a. vitnað til orða Sigríðar Guðmundsdóttur hjúkrunardeildarstjóra, sem segir: „Þessi verðlaun hafa mikla þýðingu fyrir okkur. Þetta hvetur starfsfólkið áfram, það fær viðurkenningu fyrir það sem það er að gera og leggja sig fram við alla daga eins vel og það getur.“ Sigrún Garðarsdóttir yfiriðjuþjálfi bætir við, að verðlaunin geri starfsfólkið sýnilegra: „Þrátt fyrir mikinn hraða, álag og ekki sérlega gott húsnæði þá höldum við bara áfram okkar starfi.“ Guðrún Lúðvíksdóttir læknir bendir á, að þetta sé líka mikilvægt fyrir sjúklingana: „Það er gott að þeir fái að finna að það skipti fólk i samfélaginu miklu máli að þeir komist aftur út í lífið og að það sé talið mikilvægt, að fólk fái góða endurhæfingu.“
 
Hollvinir Grensásdeildar óska starfsfólki Grensásdeildar til hamingju með þessa verðskulduðu viðurkenningu.