Margir komu að vel heppnuðum jólabasar
Árlegur jólabasar Hollvina Grensásdeildar skilaði góðum tekjum til styrktar Grensásdeild. Ágæt aðsókn var á basarinn og þar hittust margir velunnarar Hollvina Grensásdeildar, gerðu góð kaup og fengu sér kaffi með vöfflum. Basarinn hefur orðið að eins konar árshátíð þar sem félagar HG og aðrir velunnarar Grensásdeildar hittast til að blanda geði og gleðjast á aðventunni.
Eins og alltaf áður sýndi Edda Heiðrún HG mikla rausn og gaf fallega mynd af óðinshana og fjórar eftirprentanir af myndum sínum á basarinn, einnig rann ágóði af sölu nýju listaverkabókar Eddu Heiðrúnar til samtakanna. Efnt var til happdrættis um myndina af óðinshananum og seldust miðar fyrir meira en 50 þús. kr. Dregið var um vinninginn í lok basarsins og kom hann í hlut Báru Elíasdóttur. Hollvinir Grensásdeildar kunna Eddu Heiðrúnu miklar þakkir fyrir allt hennar framlag til félagsins fyrr og síðar.
Eins og áður sáu félagar í Bifhjólasamtökum lýðveldisins, „Sniglunum“, um vöfflubakstur og kaffi- og kakógerð. Margir aðrir, bæði félagar í HG og aðrir, sem og starfsfólk og skjólstæðingar Grensásdeildar lögðu til söluvarning og hjálpuðu á basarnum og er stuðningur þeirra ómetanlegur. Án hans hefði þessi árangur ekki náðst. Loks ber að nefna að innflytjendur og framleiðendur gáfu nánast allt efni í vöfflubakstur og kaffiveitingar og Feldur Verkstæði gaf að vanda sína einstæðu skinnavöru til styrktar HG. Stjórn Hollvina Grensásdeildar þakkar öllum þessum aðilum fyrir rausnarleg framlög þeirra.


