September 2014

Gunnar Finnsson, formaður Hollvina Grensásdeildar, er látinn

 

Stjórn HG harmar fráfall Gunnars Finnssonar, góðs vinar og frábærs samstarfsmanns, sem varð bráðkvaddur á heimili sínu sunnudaginn 31. ágúst.
 
Gunnar átti frumkvæði að stofnun Hollvina Grensásdeildar vorið 2006 og veitti þeim alla tíð forystu. Hann vakti stöðugt yfir velferð Grensásdeildar, skjólstæðinga hennar og starfsfólks og sparaði þar hvorki tíma né krafta. Gunnar gegndi um áratugaskeið stjórnunarstörfum erlendis á vegum Alþjóða Flugmálastofnunarinnar og fengu HG að njóta hans miklu reynslu og færni við lausn erfiðra mála.
 
Hollvinir Grensásdeildar sjá á bak einstökum liðsmanni og leiðtoga. Stjórnin þakkar af heilum hug frábært samstarf og sendir fjölskyldu Gunnars innilegar samúðarkveðjur, einkum Kristínu konu hans, sem alla tíð hefur verið honum og hugðarefnum hans stoð og stytta.