Mars 2011

Skýrsla stjórnar fyrir aðalfund 2011

Samtökin Hollvinir Grensásdeildar voru stofnuð 5. apríl 2006.  Tilgangur þeirra er að styðja við,  efla og styrkja endurhæfingarstarfsemi þá,  sem fram fer á Grensásdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss eða í tengslum við þá starfsemi.  Skal það gert með öflun fjár til þeirrar starfsemi og eins með því að vekja athygli á og hvetja til styrktar starfseminnar á opinberum vettvangi.
Aðalfundir hafa verið haldnir árlega, seinast  19. apríl 2010.  Stjórnin,  sem þá var kosin, skipti þannig með sér verkum:  Formaður  Gunnar Finnsson;  varaformaður Þórir Steingrímsson;  ritari  Guðrún Pétursdóttir;  gjaldkeri Þórunn Þórhallsdóttir; og meðstjórnandi Edda Bergmann.  Varamenn:  Ásgeir B. Ellertsson og Baldvin Jónsson.  Skoðunarmenn reikninga voru kosnir Bergur Jónsson og Ellert Skúlason.  Varamenn hafa setið stjórnarfundi og tekið fullan þátt í störfum stjórnarinnar.  Jafnframt hefur stjórnin notið náinnar samvinnu við Stefán Yngvason, yfirlækni, og annað starfsfólk á Grensásdeild.   Aðalfundurinn fagnaði því að Edda Heiðrún Backman,  sem gerð var að fyrsta heiðursfélaga HG á fundinum,  hefði samþykkt að vera sérlegur ráðgjafi samtakanna,  einkum í málum er snertu fjáröflun og kynningu.

Helstu atburðir
Lausn á húsnæðisvanda Grensásdeildar var áfram aðalverkefni HG á árinu en þar skiptust á skin og skúrir.  Álfheiður Ingadóttir,  þáverandi heilbrigðisráðherra, sýndi málinu mikin skilning og áhuga,  og heimsótti Grensásdeild og kynnti sér aðstöðuna þar og þarfir.  Hún ávarpaði síðan seinasta aðalfund HG og sagði að verið væri að undirbúa aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun endurbóta á húsnæðisvanda Grensásdeildar,  og tilkynnti jafnframt að 30 m. kr. skyldi þegar vera veitt til yfirbyggingar bílastæðis við aðalinngang deildarinnar (HG munu fjármagna það sem á vantar til þeirrar framkvæmdar).    Þá lét Álfheiður gera frumáætlun um húsnæðismál og aðkomu að Grensásdeild.  Var frumáætlunin kynnt af LSH  á fundi sem Álfheiður boðaði til í Heilbrigðisráðuneytinu þ. 9. júlí 2010.  Frumáætlunin,  sem er ítarleg og vönduð, inniheldur tillögur og drög að endurbótum á og stækkun Grensásdeildar.    Áætlunin,  sem byggð er á þarfagreiningu starfshópa Grensásdeildar og Hollvina Grensásdeildar,  gerir ráð fyrir að byggð verði um 2300m2  viðbygging við núverandi húsnæði sem mundi hýsa sjúkra- og iðjuþjálfun,  matsal,  skrifstofur ofl..  Komið verði fyrir yfirbyggðum bílastæðum sunnan við aðalbyggingu og í kjallara nýbyggingarinnar til að bæta aðgengi fatlaðra og þjónustubíla að húsinu. 

Frumkostnaðaráætlun fyrir nýbyggingu og bílastæði er um 1025 m.kr. og var áætlað miðað við 20 til 25 ára tímabil og ásættanlega vexti,  að árlegar afborganir og vextir af fjármögnun af þeirri upphæð mundu nema um 100 m.kr..  HG benti á í því sambandi að af þeim yfir 400 sjúklingum sem Grensásdeild útskrifar á ári hverfa vel yfir 100 til fullra starfa á ný og nema skatttekjur hins opinbera af þeim hærri upphæð.  Þá, eins og bent var á,  væri eftir að reikna sparnað ríkisins af lækkun eða niðurfellingu bótagreiðslna til þess hóps.   Í lok fundarsins var talið að með kynningu frumáætluninnar og stuðningi ráðherra við hana væri málið komið til heilbrigðisráðuneytisins.  Yrði þar m.a. unnið að þeim atriðum í sambandi við fjármögnun sem að ráðuneytinu snúa þ.m.t. mögulegri aðkomu samtaka lífeyrissjóða og kynningu málsins fyrir þeim. 

Álfheiður fylgdi málinu vel eftir og sagði í bréfi til HG þ. 1. september 2010: “Heilbrigðisráðherra mun leggja sitt af mörkum til að endurbygging Grensásdeildar geti orðið að veruleika og mun taka málið upp við nefnd ríkisstjórnar,  sem hefur það hlutverk að ræða við lífeyrissjóðina um fjármögnun framkvæmda,  í því skyni að leita samstarfs við lífeyrissjóðina um fjármögnun nýrrar endurhæfingardeildar.”  Rétt eftir það gengu í hönd miklar breytingar á skipulagi ríkisstjórnarinnar,  sem enn er verið að hrinda í framkvæmd og heyra heilbrigðismál nú undir hið nýja Velferðarráðuneyti.  Hefur mál Grensásdeildar síðan setið á hakanum. 

En sem betur fer hafði yfirbygging bílastæðisins þegar verið tryggð og liggur endanleg hönnun þess nú fyrir.  Tók stjórn HG virkan þátt í því verki. Leggja á í framkvæmdir með vorinu og er áætlað að þeim ljúki í júlí í sumar. Heildarkostnaður er áætlaður um 55 m. kr..  Það sem á vantar yfir 30 m. kr. framlagið,  sem Álfheiður Ingadóttir tryggði,  þ.e. um 25  m. kr.,  mun verða greitt af söfnunarfé Á rás fyrir Grensás átaksins. 

Önnur verkefni sinnt af HG
Að ósk stjórnenda Grensásdeildar gáfu HG heimilstæki þ.á.m. sjónvarp, hljómtæki, örbylgjuofn ofl. fyrir tæplega 287 þúsund kr. fyrir æfingaríbúð,  sem tekin var í notkun á Grensásdeild 27. september sl..  Og þegar starfsfólk Grensásdeildar hélt “Opið hús” þar þ. 20. nóvember sl. hafði það ekki fé til að auglýsa atburðinn.  Ákváðu HG því að sjá um og greiða fyrir auglýsingar í fjölmiðlum fyrir samtals 70 þúsund kr..  Opna húsið tókst glæsilega, og komu um 500 gestir.  HG var með borð sem margir heimsóttu og spurðu margra spurninga.  Bættist vel á annan tug nýrra Hollvina í samtökin þá.  Þar lá jafnframt frammi fjögurra blaðsíðna kynningarbæklingur sem HG höfðu þá nýverið staðið fyrir hönnun og prentun á.  Fyrstu tvær síðurnar eru stutt ágrip um tilgang HG og starfsemi Grensásdeildar sem og þjóðhagslega arðbærni hennar en þriðja og fjórða síðan afrífanlegt póstkort, sem nota má til að skrá sig sem félaga í HG.

Fjárhagur
Stökkbreyting varð í fjármálum HG á árinu 2009 þegar Edda Heiðrún Backman stóð fyrir söfnunarátakinu Á rás fyrir Grensás undir merkjum og í samstarfi við HG.  Eins og fram kom í skýrslu stjórnarinnar fyrir árið 2009 höfðu þá safnast undir átakinu,  að frádregnum kostnaði,  102,5 m. króna en auk þess bárust miklar gjafir í fríðu.  Og meira bættist við á sl. ári.  Sonja Foundation í Bandaríkjunum styrkti átakið með US$ 25 þúsund framlagi eða 3,194 m. krónum.  Var það gert að frumkvæði Guðmundar H. Birgissonar,  sem situr í stjórn Sonja Foundation.  Þá styrkti Íslandspóstur átakið með 500 þúsund króna gjöf og Læknafélag Íslands lét allan ágóða,  100 þúsund kr.,  af hlaupi á vegum félagsins renna til átaksins.  Gunnlaugur Júlíusson,  sem hóf átakið með hlaupi sínu frá Grensádeild til Akureyrar í júní 2009 reyndist aftur haukur í horni því hann ásamt Vestfirska forlaginu gáfu allan ágóða af sölu bókar Gunnlaugs Að sigra sjáfan sig,  300 þúsund krónur,  til átaksins.

Sérstakt söfnunarátak fór fram á landinu til að aðstoða Ómar Ragnarsson við að greiða þær skuldir sem hann hafði tekið á sig vegna verkefna á hans vegum til verndar náttúru Íslands.  Ómar ákvað að það sem safnaðist umfram það skyldi renna til Hollvina Grensásdeildar og voru það 418 þúsund krónur.  Þá færðu Sniglarnir Hollvinunum 230 þúsund krónur í jólagjöf. En við höfum notið góðs frá Sniglunum á annan máta því Baldvin Jónsson fyrrum formaður þeirra hefur verið varamaður í stjórn Hollvinanna frá upphafi.  Þá færði stuðningur þeirra sem hlupu Reykjavíkurmaraþonið fyrir Hollvini Grensásdeildar okkur 441 þúsund krónur.  Og margir aðrir studdu samtökin með framlögum,  sem mjög er þakkað fyrir.

Eins og fram hefur komið er starfsemi tengd Á rás fyrir Grensás aðskilin frá annari starfsemi HG og og eins og greint var frá á seinasta aðalfundi gilda sérstakar reglur um hvernig ráðstafa megi söfnunarfénu.  Í þeim kemur fram m.a. að almennt skal sú regla gilda að fé skal eingöngu veitt til framkvæmda er styðja við og/eða efla endurhæfingastarfsemi Grensásdeildar,  og/eða stuðla að bættum aðbúnaði sjúklinga,  aðstandenda og starfsfólks þar;  að framlögum skal einungis varið til nýbygginga eða viðbóta við húsnæði Grensásdeildar og að því loknu,  eða fyrr ef kringumstæður réttlæta,  til kaupa á háþróuðum tækjum og útbúnaði til endurhæfingar;   að  framlögum skal ekki varið til reksturs Grensásdeildar;  og við val og forgangsröðun einstakra framkvæmda skal leitað álits stjórnenda Grensásdeildar.

Innistæður á reikningum Á rás fyrir Grensás eru helstu eignir samtakanna.  Í árslok 2010 námu þær samtals 108,524 m. kr..  Til að draga úr áhættu hefur ávöxtun söfnunarfjárins verið dreift milli Auðar Capital, Arion banka, Íslandsbanka og Sparisjóðs Suður Þingeyinga.  Um skammtíma ávöxtun er að ræða og mjög íhaldssamri stefnu fylgt þar sem megináherslan er á ríkistryggðum skuldabréfum og víxlum og bankareikningum með tiltölulega stuttan bindistíma. 

Á bankareikningum HG sjálfra voru sl. áramót 2,640 m.kr.. Í heild eru skuldlausar eignir samtakanna, sem eingöngu eru bundnar í innistæðum hjá fjármálastofnunum 111,164 m. kr.. Stjórnin vill í sambandi við ársreikninganna sérstaklega geta þeirrar rausnar löggiltu endurskoðendanna Valdimars Guðnasonar og Valdimars Ólafssonar að endurkoða aftur endurgjaldslaust reikninga samtakanna og jafnframt þakka PWC fyrir fjölritun þeirra.

Félagatal,  árgjald og minningarkort
Félagar í HG eru nú 223.  Árgjaldið hefur verið 1.000- krónur síðan samtökin voru stofnuð 2006.  Kaupmáttur þess hefur minnkað mjög á þessum tíma og telur stjórnin nú nauðsynlegt að hækka árgjaldið um 500 krónur eða tæpar 42 krónur á mánuði í 1500 krónur.  Önnur og jafnframt helsta tekjulind HG er sala minningarkorta en hún nam 570 þúsund krónum á árinu.  Þar standa samtökin í mikilli þakklætisskuld við Aðalheiði Högnadóttur , skrifstofustjóra á Grenásdeild, því hún hefur tekið að sér í aukavinnu, að sjá um móttöku og afgreiðslu beiðna um kort.  Leitað var tilboða á árinu í prentun minningarkortanna.  Prentsmiðjan hjá GuðjónÓ sýndi þann höfðingsskap að bjóða endurgjaldslaust prentun 800 korta með umslögum.

Tengsl
Þetta var fyrsta heila árið, sem vefsíða HG, www.grensas.is var rekin.  Viðbrögð hafa verið góð og er stöðugt unnið að því að gera vefsíðunni að enn meira lifandi gagni.  Eins er stefnt að því að vefsíðan geti staðið undir sér fjárhagslega með birtingu auglýsinga.  Rétt er hafa í huga að regluleg uppfærsla vefsíðu krefst kostnaðarsamrar sérhæfingar og verða HG sem aðrir því að sníða sér stakk eftir vexti í þeim málum.   Þá skal þess getið að náið samstarf var áfram á árinu milli HG og samtakanna Heilaheilla,  og eins er samstarf við samtökin Sjálfsbjörg,  en fyrir öll þessi samtök skiptir starfsemi Grensásdeildar miklu máli.

Starfsáætlun komandi árs
Lög samtakanna mæla svo fyrir að aðalfundur samþykki starfsáætlun komandi árs.  Stjórnin leggur til að HG leggi megináherslu á stuðning við aðgerðir sem lúta að fjármögnun byggingarframkvæmda til að leysa hin alvarlega húsnæðisvanda Grensásdeildar.  Í því                                                          sambandi skal sérstaklega bent á nauðsyn þess að stjórnvöld hætti að horfa eingöngu á kostnað við framkvæmdirnar heldur meti jafnframt  þjóðhagslega arðbærni framkvæmdanna í formi sparnaðar á öðrum sviðum sem og auknu tekjustreymi.  Sé það ekki gert er illmögulegt að taka ákvarðanir um gildi framkvæmdanna á rökrænum grunni.  Þá verði áhersla áfram lögð á að verja Grensásdeild við frekari niðurskurði og aðstoð veitt við kaup á tækjum og útbúnaði,  sem deildina vanhagar um.  Og að unnið verði áfram að fjáröflun á vegum HG og  nýrra fjáröflunarleiða verði leitað.  Þá skuli stefnt að því að gera HG að vettvangi umræðna um endurhæfingu og að það komi fram sem viðbót í lögum samtakanna þar sem greint er frá tilgangi þeirra,  með eftirfarandi setningu: “Samtökin skulu jafnframt styðja við og taka þátt í allri umræðu um þýðingu endurhæfingar fyrir þjóðfélagið.”

Lokaorð
Ljóst virðist að áætlanir um lausn á húsnæðisvanda Grensásdeildar hafa verið lagðar til hliðar.  Og enn og aftur virðist því miður ekki hafa verið tekið tillit til þess mikla þjóðhagslega sparnaðar og tekjuaukningar,  sem breyttar aðstæður á Grensásdeild gætu leitt til.  Mest aðkallandi nú er að standa vörð um að þjónustan verði ekki frekar skert.  Auður Grensásdeildar felst í því frábæra starfsliði sem þar er og sem hefur lyft Grettistaki við afar erfiðar aðstæður.   Stjórn HG lýkur þessari skýrslu með miklu þakklæti til og aðdáun á þessu einstaka liði.