September 2010

Lionsfélagar skynja gildi endurhæfingar!

Mánudaginn 13.09.2010 var móttökuathöfn á Grensásdeild fyrir Lionsklúbbinn Njörð vegna allara rausnarlegu gjafanna er klúbbfélagar gáfu deildinni s.l. vor, sem var m.a. lyftur í sundlaug o.s.frv, er sérstklega valda straumhvörfum í endurhæfingu fjölfatlaðra einstaklinga. 
 
 
 
Viðstaddir voru, auk fjölmargra félaga Lionsklúbbsins, m.a. þeir er stofnuðu klúbbinn fyrir u.þ.b. 50 árum.  Þá voru einnig viðstaddir stjórnendur LSH ásamt Birni Zoega, nýskipuðum forstjóra LSH, stjórnarmeðlimum Hollvina Grensásdeildar, þeim Gunnari Finnssyni, formanni og Þórir Steingrímsson, varaformanni.  Eftir ávarp Sigrúnar Knútsdóttur, yfirsjúkraþjálfara á endurhæfingardeild LSH Grensás er hlaut nýlega viðurkenningu Evrópudeildar Heimssambands sjúkraþjálfara, var gengið með gestum um húsið og þeim sýndar gjafirnar og síðan voru veittar veitingar.   
            
 
Fréttablaðið greindi frá því dags.15.09.2010 að Lionsklúbburinn Njörður í Reykjavík hafi fært Endurhæfingardeild Landspítala Íslands á Grensási veglega gjöf í tilefni 50 ára afmælis klúbbsins. "Gjöfin er búnaður að verðmæti hátt á þriðja tug milljóna sem komið hefur verið fyrir á Grensásdeildinni að undanförnu.  Í tilkynningu frá klúbbnum segir að þetta sé sennilega ein allra stærsta einstaka gjöf sem nokkur þjónustuklúbbur hefur gefið hér á landi. Í henni felast margs konar tæki, meðal annars tölvubúnaður og forrit, húsbúnaður, myndavél, hjólastóll og ekki síst rafdrifinn stand- og magahjólabekkur og tvær sundlaugarlyftur, sem fóru til sjúkraþjálfunardeildar.  Steinar Petersen, formaður klúbbsins, sagði í samtali við blaðið að undirbúningur þessarar gjafar hefði staðið lengi, en fjárins var aflað með árlegum herrakvöldum klúbbsins. „Við höfum styrkt Grensás áður, en okkur fannst þetta afar verðugt verkefni,“ sagði Steinar.
 
Njörður er stærsti Lionsklúbbur landsins með um 60 meðlimi.  Hann hefur á sínum 50 árum veitt ótal styrki, samtals að upphæð 200 til 250 milljónir króna að núvirði."