UM SAMTÖKIN

Hollvinir Grensásdeildar styðja við, efla og styrkja endurhæfingarstarf Grensásdeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss. Það er  gert með öflun fjár til tækjakaupa og annarra brýnna verka og með því að vekja athygli á mikilvægi endurhæfingar og þess starfs sem unnið er á deildinni. Einnig með því að taka þátt í undirbúningi endurbóta á húsnæði deildarinnar.

Samtökin voru stofnuð 5. apríl 2006 og eru félagar nú á fimmta hundrað.

 

HVAÐ GERIR GRENSÁSDEILD SÉRSTAKA?

Hún er miðstöð frumendurhæfingar á Íslandi, einkum fyrir fólk með mænuskaða, heilaskaða og fjöláverka. Aðeins þar er veitt sérhæfð teymisþjónusta, bæði á legu- og göngudeildargrunni. Með hverjum skjólstæðingi vinnur samhæft teymi lækna, sjúkra- og iðjuþjálfa, hjúkrunar-, talmeina- og sálfræðinga, sem saman sníða meðferðina að breytilegum þörfum hvers og eins.

 

ÞJÓÐFÉLAGSLEG ARÐBÆRNI

Fleiri en tveir af hverjum þremur sjúklingum deildarinnar eru á vinnufærum aldri og um 20% þeirra sem útskrifast snúa til starfa á ný, en á sjö árum hafa skattar þeirra endurgreitt heildarkostnað Grensásdeildar það árið, sem þeir voru þar. Þá er ótalinn sparnaður vegna örorkubóta eða lífeyris, sem ella hefði þurft að greiða. Því betri sem aðstæður til endurhæfingar verða, þeim mun fleiri sjúklingar munu komast til starfa á ný. Síðast en ekki síst verður lífsgleðin sem fylgir því að ná meiri færni aldrei metin til fjár.

 

VANDINN ER BRÝNN

Mikilvægt er að endurhæfing hefjist sem fyrst eftir áfall. Töf á því skerðir möguleikana á að ná fullri færni og getur leitt til varanlegs skaða. Síðan Grensásdeild tók til starfa árið 1973 hefur einungis sundlaug til þjálfunar verið bætt við. Þjóðinni hefur fjölgað um meira en 40% á þeim tíma. Hlutfallslega fleiri þurfa á endurhæfingu að halda vegna stórstígra framfara í læknisfræði og þess að nú bjargast fleiri úr slysum en áður. Um fjórðungur innlagna á Grensásdeild er vegna slysa sem hent geta unga sem aldna.

 

VERKEFNIN FRAMUNDAN

Hollvinir Grensásdeildar hafa vakið athygli á starfi deildarinnar í fjölmiðlum og talað máli hennar við ráðamenn. HG hafa jafnframt styrkt deildina með kaupum á tækjum. Straumhvörf urðu árið 2009 þegar Edda Heiðrún Backman leikkona stóð með stuðningi HG fyrir söfnunarátakinu Á rás fyrir Grensás. Þjóðin brást stórkostlega við þessu kalli og söfnuðust meira en 100 milljónir króna. Það er mikilvæg hvatning til ráðamanna að sjá vilja þjóðarinnar svona í verki.

Þetta fé hefur verið og verður nýtt til brýnna úrbóta á Grensásdeild sem á bæði við húsnæðisvanda og tækjaskort að stríða, sem hamlar eðlilegri þróun í starfi hennar. HG hafa átt mjög gott samstarf með ráðamönnum Grensásdeildar og LSH, heilbrigðisyfirvöldum og öðrum sem að málið varða. Markmiðið er að Grensásdeild geti sinnt þeim vaxandi fjölda sem er háður þjónustu hennar. HG munu áfram gera það sem í þeirra valdi stendur til að þessu markmiði verði náð.

Það væri okkur hvatning og gleðiefni ef þú sæir þér fært að leggja okkur lið. Það getur þú gert með því að gerast félagi í HG (sjá stikuna á forsíðu) eða styðja við starf okkar á annan máta.

Þótt enginn vilji þurfa á þjónustu Grensásdeildar að halda, erum við öll þakklát fyrir að hún skuli vera til og sendum frábæru starfsfólki deildarinnar okkar bestu þakkir og kveðjur.

 

Guðrún Pétursdóttir, formaður Hollvina Grensásdeildar