Frá opnun árið 1973 hefur endurhæfingardeildin á Grensási veitt sérhæfða endurhæfingarþjónustu þeim sem verða fyrir heilsutapi af völdum slysa eða sjúkdóma. Flestir sjúklingar koma frá öðrum deildum Landspítala. Þjónustan er heildstæð og sniðin að hverjum og einum.
 
Í boði eru þrenns konar þjónustustig, legudeild, dagdeild og göngudeild.
 
 
Fjölbreytt þjónusta
 
Verkefni Grensásdeildar eru mjög margbreytileg en eiga öll það sameiginlegt að gefa sjúklingum tækifæri til að öðlast á ný sem mest af fyrri færni og aðlagast breyttum aðstæðum. Algengustu verkefnin eru vegna heilablóðfalla, heilaskaða, mænuskaða, fjöláverka, liðskipta, alvarlegra veikinda og missis útlims.
 
 
Fagþekking
 
Starfsfólk deildarinnar býr yfir mikilli fagþekkingu, fjölbreytilegri menntun og reynslu sem virkjuð er í teymum þar sem sjúklingar er virkir þátttakendur. Endurhæfing tekur til líkamlegra, sálrænna og félagslegra þátta. Sett eru markmið í upphafi meðferðar og áherslur lagaðar að þeim.
 
 
Í farabroddi nýjunga
 
Á undanförnum árum hefur ný tækni rutt sér rúms í endurhæfingu s.s. á sviði sértækrar meðferðar, þjálfunar og hjálpartækja. Endurhæfingardeildin hefur tekið virkan þátt í þeirri þróun og eru dæmi um slíkt ný þjálfunartækni með aðstoð sýndarveruleika og gönguhermis, meðferð vöðvastjarfa með ígræddum lyfjadælum og meðferð öndunarlömunar með þindargangráð.