Lög Hollvina Grensásdeildar

 

Nafn

Nafn samtakanna er Hollvinir Grensásdeildar. Heimili þeirra og varnarþing er í Reykjavík.

Tilgangur

Tilgangur samtakanna er að styðja við, efla og styrkja endurhæfingarstarfsemi þá, sem fram fer á Grensásdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss eða í tengslum við þá starfsemi. Skal það gert með öflun fjár til þeirrar starfsemi og eins með því að vekja athygli á og hvetja til styrktar starfseminni á opinberum vettvangi.

Aðild

Meðlimir samtakanna eru þeir einstaklingar, sem greiða árgjald þeirra. Jafnframt geta fyrirtæki eða félagasamtök gerst aðilar með greiðslu árgjalds. Árgjald skal greitt fyrir lok hvers árs. Sé árgjald ekki greitt á tilsettum tíma telst viðkomandi hafa sagt sig úr samtökunum. Greiðslu árgjalds fylgir sjálfkrafa skráning í samtökin.

Stjórnun

Æðsta vald í málefnum samtakanna er í höndum aðalfundar, sem haldinn skal fyrir maílok ár hvert. Boðað skal til hans með auglýsingu, tölvupósti og/eða skriflega með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Fundurinn er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Á aðalfundi skal tekin fyrir skýrsla stjórnar fyrir síðastliðið ár, endurskoðaðir reikningar samtakanna lagðir fram til samþykktar, stjórn og skoðunarmenn reikninga kosin, árgjald ákveðið, starfsáætlun komandi árs samþykkt, tillögur að lagabreytingum teknar fyrir og önnur mál. Tillögur að breytingum á lögum samtakanna skal senda skriflega til formanns samtakanna ekki seinna en sex vikum fyrir aðalfund og skulu þær kynntar í fundarboði. Til breytinga á lögum samtakanna þarf 3/5 greiddra atkvæða á aðalfundi.

Stjórn samtakanna, sem hefur æðsta vald milli aðalfunda, skipa fimm aðalmenn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi, og tveir til vara. Varamenn sitja stjórnarfundi. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar. Kjöri stjórnarmanna skal þannig háttað að annaðhvort ár eru kjörnir þrír stjórnarmenn og einn til vara. Næsta ár skulu kjörnir tveir stjórnarmenn og einn varamaður. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár. Stjórnin skiptir með sér verkum. Þess skal þó gætt að formaður og varaformaður séu ekki kosnir á sama ári.

Fjármál

Tekjustofn samtakanna eru árgjöld sem og aðrar tekjur, sem þau kunna að afla eftir þvi sem aðstæður leyfa. Reikningsár samtakanna er almanaksárið.

Slit samtakanna

Til að leggja samtökin niður þarf samþykki tveggja aðalfunda í röð og þarf það að vera samþykkt með a.m.k. 4/5 greiddra atkvæða á hvorum fundi. Seinni aðalfundinn skal halda eftir að sex mánuðir eru liðnir frá þeim fyrri. Geta skal sérstaklega áforms um slit samtakanna í fundarboði.

Verði samtökin lög niður skal eignum þeirra ráðstafað til styrktar starfsemi Grensásdeildar í samráði við stjórn Landspítala Háskólasjúkrahúss. Því ákvæði má aldrei breyta.

 

Reykjavík, 5. apríl 2006/ 24. október 2022/ 15. febrúar 2023.